Magnús Pálsson
Myndlistarmaðurinn sá að það var út í bláinn að maður úr marmara væri skúlptúr en maður úr holdi og beinum væri það ekki. Og hann staðhæfði: Ég er skúlptúr. Þegar ég hreyfi mig er ég hreyfanlegur skúlptúr og um leið og ég gef frá mér hljóð er ég hljóðskúlptúr. Sá sem er meðvitaður um að vera skúlptúr hrærist strax í annarri vídd. Hann stendur fyrir framan spegil og gaumgæfir útlit sitt og er þá á skúlptúrsýningu sem breytist auðveldlega í konsert. Þegar hreyfingar og hljóð verða flóknari er kominn gjörningur, nefnilega leikhús.
„Já, rýmið sem negatívu af mannverum og hlutum, ekki satt. Já, það var nú það. Eða öfugt. Mér fannst það segja eitthvað um positívan og negatívan sannleika. Það er um það, að ef ein fullyrðing er sönn þá er andstæð fullyrðing jafnsönn, ekki satt? Ég var víst að setja þetta svona fram, að færa þetta yfir í efni og mynd, kannski ekki til að það sannaði neinar heimspeki-kenningar, en mér fannst að það illustreraði þessa hugsun. [...] Já, því enginn hlutur er til nema andstæðan sé til um leið."
(Úr viðtali í Svart á hvítu, 1978)